Sólmyrkvi föstudaginn 20. mars - Allir nemendur og starfsfólk grunnskólans fá gefins gleraugu

Sólmyrkvinn 20. mars er almyrkvi. Ferill almyrkvans liggur aðeins 70km austur af suðausturhluta Íslands. Hérna munum við sjá verulega deildarmyrkva en tunglið mun hylja um 98% hluta sólarinnar. En næsti almyrkvi sem við munum sjá verður 12. ágúst 2026. Þetta verður mesti myrkvi sem sést hefur frá Íslandi síðan 30. júní 1954.

Sólmyrkvinn stendur yfir í um tvær klukkustundir en hann hefst kl. 8:38, nær hámarki kl. 9:37 og lýkur kl. 10:39. Við í Grunnskólanum í Sandgerði munum fylgjst vel með myrkanum en skólinn fékk gefins sólmyrkvagleraugu fyrir alla nemendur og starfsfólk skólans frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, Stjörnufræðivefnum og Hótel Rangá.

Sólmyrkvi verður þegar tunglið gengur á milli sólar og Jarðar og myrkvar sólina að hluta til eða í heils frá Jörðu séð. Það gerist aðeins þegar sólin, tunglið og Jörðin eru í beinni línu. Sólmyrkvar geta eingöngu orðið þegar tungl er nýtt. Við almyrkva hylur tunglið skífu sólar í heild sinni en við deildar- eða hringmyrkva er aðeins hluti sólar hulinn.

Hér er hægt að fá fleiri upplýsingar og myndbönd varðandi sólmyrkvann.