Viðbragðsáætlun ef Almannavarnir gefa út viðvörun um hættuástand

Viðbragðsáætlun ef Almannavarnir gefa út viðvörun um hættuástand

Upplýsingar eru á: https://www.facebook.com/almannavarnir/ og www.almannavarnir.is

Ef ákvörðun um rýmingu verður tekin þá verða foreldrar að sækja börnin í skólann.

Helstu skref:

  1. Almannavarnir tilkynna
  2. Skólastjórnendur upplýsa
  3. Manntal
  4. Nemendur í heimastofur
  5. Foreldrar sækja

Hlutverk skólastjórnenda:

  • Koma upplýsingum út í allar stofur skv. upplýsingum frá Almannavörnum.
  • Starfsmaður er settur við alla útganga skólans til að varna því að nemendur hlaupi út. (inngangur hjá umsjónarmanni, Inngangur að norðan- sunnan- og að austanverðu, Skólasel, smíðastofu, salurinn, myndmennt, bókasafn, tónlistarskóla og við Íþróttamiðstöð).

  • Stjórnendur eru í samskiptum við lögreglu og Almannavarnir.
  • Skólastjórnendur fylgjast með rýmingarferlinu og aðstoða eftir föngum bæði foreldra og starfsfólk.
  • Skólastjórnendur taka við nemendum þegar þeir verða komnir í safnstofur og aðrir starfsmenn geta farið heim.
  • Skólastjóri/skólastjórnandi fer síðastur úr húsi og gengur úr skugga um að allir séu farnir út, gluggar og hurðir lokaðar, útidyr læstar. Að lokum eru upplýsingar veittar til lögreglu og Almannavarna um rýmingu skólahúsnæðis.
  • Ef einhverjir nemendur verða ekki sóttir fer skólastjórnandi með þá í safnstöðina (Sandgerðisskóla Almannavarnir taka yfir skólann þar sem hann er safnstöð).

Hlutverk starfsfólks:

  • Stjórnendur upplýsa kennara/starfsfólk um tilkynningu um neyðarrýmingu sbr. upplýsingar frá Almannavörnum.
  • Starfsmaður er settur við alla útganga skólans til að varna því að nemendur hlaupi út.
  • (Inngangur hjá húsverði, Inngangur að norðan- sunnan- og að austanverðu, Skólasel, smíðastofu, salurinn, myndmennt, smíði, bókasafn, tónlistarskóla og við Íþróttamiðstöð).
  • Kennari  þarf  að  taka manntal m.v. nafnalista sem hangir í stofunni. Íþróttakennarar, list- og verkgreinakennarar í valgreinum eru líka með nafnalista.
  • Ef til rýmingar kemur á meðan frímínútur/matur stendur yfir er hringt inn og nemendum safnað í sínar heimastofur. Alltaf með yfirvegun og ró að leiðarljósi.
  • Kennarar senda til foreldra í hvaða hópum nemendur eru í sundi og íþróttum þannig að foreldrar viti hvar barnið er staðsett.
  • Kennari bíður með nemendum inni í stofu þar til foreldri eða staðgengill sækir nemanda. Nemendur fá ekki að fara út úr húsi einir.
  • Kennari merkir við á nafnalista þegar búið er að sækja nemanda. Nemendur eru ekki látnir í hendur annarra en eru á aðstandendalista í Mentor eða staðgengla foreldra sem þeir hafa gefið upp fyrir fram til umsjónarkennara.
  • Gæta þarf þess að enginn nemandi fari út úr kennslustofu. Ef nemandi þarf að fara á salerni þá fær hann fylgd.
  • Þegar kennari yfirgefur stofuna síðastur þarf að loka gluggum og loka hurðum (ekki læsa).
  • Þegar búið er sækja flesta nemendur verður þeim sem eftir verða safnað í eina stofu undir stjórn stjórnanda. Kennari afhendir nafna- og aðstandendalista. Yngsta stig 1. –  4.  bekkur safnast í  stofu 120 (1. stofa t.h. frá bílastæði). Miðstig 5. – 7. bekkur stofu 122 (2. stofa t.h. frá bílastæði). Unglingastig 8. – 10. bekkur í stofu 124 Þjóðgarði (3. Stofa til vinstri frá bílastæði) Nemendur í íþróttahúsi og sundi safnast saman í íþróttasal. Þegar búið er að skila þeim sem eftir verða í safnstofuna þá getur viðkomandi kennari/starfsmaður farið heim. Skólastjórnandi og/eða umsjónarmaður sjá um vaktina í safnstofunni.
  • Ef nemandi er staddur í Íþróttamiðstöð, í íþróttum eða sundi þarf íþróttakennari að halda nemendum inni í íþróttahúsinu þar til þeir eru sóttir í íþróttahúsið. Íþróttakennarar verða að halda skrá yfir nemendur og hver sækir þá.
  • Aðrir kennarar s.s. sérkennarar, list- og verkgreinakennarar, raungreinakennari og þeir sem kenna ekki í heimastofum nemenda þurfa að koma nemendum í sínar heimastofur. Nemendur sem staddir eru í tónlistarskóla og bókasafni verður fylgt í heimastofur.
  • Ef nemendur eru á Skólaseli/Skýinu þá verður þeim safnað saman þar og sóttir þangað af foreldrum. Skólastjórnandi sér um að yfirfara skólann í lokin.
  • Annað starfsfólk hjálpar til á þeim stað sem það er að vinna á, ef til rýmingar kemur.
  • Ef einhverjir nemendur verða ekki sóttir fer skólastjórnandi með þá í safnstöðina  (á sal skólans).

Foreldrar:

  • Neyðarlínan 112 annast boðun þegar ákveðið hefur verið að virkja viðbragðsáætlunina.
  • Foreldrar/staðgenglar þurfa að sækja börnin í sínar heimastofur. Ef nemendur eru staddir í íþróttamiðstöð þá þarf að sækja þá þangað. Mikilvægt er að nemendur sem eru á leið í eða úr íþróttamiðstöð haldi áfram og gangi þangað sem þeir áttu að fara, ekki snúa við.
  • Ekkert barn verður sent út án fylgdar foreldris/staðgengils.
  • Starfsmaður verður í skólanum þar til búið er að sækja alla nemendur eða koma þeim í öruggt skjól (Í skólanum er safnstöð) í samvinnu við lögreglu eða björgunarsveit.
  • Foreldrar verða að gera ráð fyrir miklu umferðarálagi við skólann komi til rýmingar á skólatíma. Benda má foreldrum á að jafnvel verður fljótlegra að koma fótgangandi.
  • Lögreglan mun leitast við að vera með umferðarstýringu við skóla komi til rýmingar
  • Ef nemendur eru ekki sóttir í skólahúsnæði eða íþróttamiðstöð fer skólastjórnandi með þá á söfnunarsvæði (Á sal skólans) og eftir atvikum í næstu fjöldahjálparstöð.

Viðbrögð við gasmengun:

  • Ef möguleg hætta steðjar að kann að vera betra að halda kyrru fyrir í skólastofum.
  • Ef til gasmengunar kemur breytist vinnulagið að því leiti að börnum er haldið í húsi þar til skilaboð berast frá Almannavörnum um annað.
  • Loka gluggum og útihurðum. Hækka hita í stofum og bleyta handklæði/tuskur og setja í opnanleg fög. Slökkva á öllum loftræstingum.

Yfirvegun og ró er mikilvæg

Viðbragðsáætlunin hefur verið yfirfarin af lögreglu og er samþykkt af starfsmönnum Sandgerðisskóla í febrúar 2021.