Slóvakíuferð 9. bekkjar

Nemendur 9. bekkjar í Sandgerðisskóla hafa síðustu tvö ár verið í samvinnuverkefni á vegum Erasmus+ við skóla í Slóvakíu. Bekkirnir hafa verið í reglulegum samskiptum, skipts á myndböndum er varða menningu, námsefni og tungumál.  Árgangurinn setti saman myndbönd um t.d. hvernig mismunandi íslensk orð eru borin fram, fjölbreytta íslenska tónlist og fræddu þau einnig um  jólasveinana okkar.  Myndbandið um jólasveinana var t.d. sýnt í öllum bekkjum skólans í Slóvakíu.

Hápunktar Erasmus+ verkefnisins var koma Slóvakana til Íslands í maí og svo ferð nemenda okkar til Slóvakíu núna í lok september.  Í maí skiptust hóparnir á að kynna sögu landanna, frægar byggingar, tungumál, þjóðsögur, spil og leiki.  Einnig nýttu vinirnir okkar frá Slóvakíu tækifærið og ferðuðust um landið okkar til að sjá allt það merkilegasta sem landið okkar hefur upp á að bjóða eins og nýafstaðið eldgos, Bláa Lónið, Gullfoss, Geysir og Vestmannaeyjar.

Núna í september fóru 27 nemendur ásamt fjórum kennurum í vikuheimsókn til Slóvakíu. Flogið var til Katowice í Póllandi og keyrt þaðan til Persov, þriðju stærstu borg Slóvakíu. Það var þétt dagskrá allan tímann og var byrjað á því að fara til Kosice, næst stærstu borg landsins. Þar var farið í dýragarð, verslunarmiðstöð til að kaupa nauðsynjar og á nýopnað safn um uppbyggingu borgarinnar.  Næstu dagar fóru í skólaheimsóknir fyrir hádegi og skoðunarferðir í nærliggjandi sveitarfélög og að skoða kastala. Vinaskólinn okkar er kaþólskur skóli og er töluverður munur á þeim skóla og skólanum okkar í Sandgerði.  Þar er kapella og starfandi prestur, sjoppa sem selur sælgæti og kjarnorkubyrgi fyrir 1000 manns. Einnig fannst nemendum athyglisvert að hádegismatur var ekki framreiddur fyrr en eftir skóla kl. 13:45. Á fjórða degi voru nemendur með sameiginlega leiksýningu um Snorra Sturluson sem heppnaðist virkilega vel. Um kvöldið var svo hópnum boðið á skólaball unglingastigs. Ballið byrjaði kl. 16.00 þar sem boðið var upp á heimabakað brauð og álegg. Þá var farið í leiki og síðan borðað gúllas í kvöldmat. Kvöldið hélt áfram með miklu stuði þar sem dansað var á fullu til kl. 22:00.

Síðustu tveir dagarnir voru nýttir vel í skoðunarferðir og skemmtun. Hópurinn skoðaði kastala, fór í sundlaugargarð og skemmtigarð sem var hápunktur ferðarinnar hjá mörgum í hópnum.  Þetta er ferð sem verður minnistæð hjá mörgum til fjölda ára.

Slóvakía

Fjöldi mynda fylgir fréttinni, sjá myndaalbúmin hér fyrir neðan.

Myndaalbúm 1

Myndaalbúm 2

Myndaalbúm 3

Myndaalbúm 4

Myndaalbúm 5