Skólastarfið - eitt og annað að frétta í byrjun vorannar

Vorönnin fer vel af stað hjá okkur í Grunnskólanum í Sandgerði. Flesti nemendur hafa mætt með foreldrum sínum til viðtals hjá umsjónarkennurum og farið þar m.a. yfir námslega stöðu, árangur, líðan, félagsleg samskipti auk þess sem nemendur hafa sett sér ný markmið. Nýr starfsmaður hefur tekið til starfa og bjóðum við Ómar Jóhannsson velkominn í hópinn en hann mun sinna starfi umsjónarkennara í 4. bekk. Nemendur i yngri bekkjum hafa síðustu daga fengið sérstaka kynningu á Taekwondo í íþróttatímum og hefur þessi tilbreyting mælst vel fyrir. En nú tekur handboltinn við í íþróttakennslunni. Nemendur í 9. og 10. bekk fengu Þorgrím Þráinsson í heimsókn með fyrirlesturinn „Verum ástfangin af lífinu“, 22. janúar og mæltist það mjög vel fyrir hjá þeim. Nemendur í 7. – 10. bekk fara á mánudag í skíðaferð í Bláfjöll og er mikil tilhlökkun í hópnum fyrir þeim degi. Lestrarátak hefst í skólanum 2. febrúar og lýkur 20. febrúar. Lestrarátakslok verða á sal 26. febrúar þar sem veittar verða viðurkenningar fyrir mestu framfarir og fyrir áhugasemi og dugnað.  Samhliða lestrarátakinu  verður hvatningaverkefnið Drekalestur áfram í gangi á bókasafninu.