- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Skólaslit Sandgerðisskóla fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans 4. júní s.l.. Skólaslitin voru þrískipt að þessu sinni, 1. - 4. bekkur, 5. – 7. bekkur og því næst 8. - 9. bekkur og útskrift 10. bekkjar. Á skólaslitum yngri flutti kór Sandgerðisskóla tvö lög undir stjórn Sigurbjargar Hjálmarsdóttur tónmenntakennara sem naut aðstoðar frá Elsu Mörtu Ægisdóttur og Ásu Ingibjörgu Sigurbjörnsdóttur. Lögin sem kórinn söng voru: Að hugsa himnaríki (Imagine) eftir John Lennon. Texti eftir Þórarinn Eldjárn og Baráttusöngur barnanna, úr söngleiknum Fíusól úr Borgarleikhúsinu. Lag og texti Bragi Valdimar Skúlason. Einnig fluttu nemendur af pólskum uppruna í 2.- 5. bekk lagið Dzień Dziecka sem þýðir Krakka Dagur, en Krakka Dagur er haldinn 1. júni á hverju ári í Póllandi.
Á útskrift og skólaslitum eldri nemenda voru tvö tónlistaratriði frá nemendum úr 10. bekk Oddný Soffía Sigurðardóttir lék á bassa og söng lagið Valentine. Lag og texti er eftir Laufeyju Lín og Guðjón Þorgils Kristjánsson sigurvegarinn úr söngvakeppni Samfés söng lagið We cant be friends. Lagið er eftir Ariana Grande.
Skólaárið einkenndist af fjölbreyttum verkefnum og áskorunum, Bylgja Baldursdóttir skólastjóri fór yfir skólaárið í ræðu sinni, hún sagði að skólaárið hafi heilt yfir gengið vel og án takmarkanna að undanskildum tveim dögum þar sem skólastarf féll niður vegan vatnsleysis í kjölfar eldgos. Hún sagði frá því að nokkrir nemendur frá Grindavík bættust við nemendahópinn og að sjaldan hafi fleiri nemendur stundað nám við skólann en á þessu skólaári auk þeirra 320 nemenda sem stunduðu nám í 1. - 10. bekk þá fengu nokkrir nemendur Leikskólans Sólborgar inni í skólanum í vor í húsnæðisvanda þeirra. Þröngt mega sáttir sitja.
Hún sagði frá því að auk hefðbundinnar kennslu hafi nemendur m.a. tekið þátt í litahlaupi, Ólympíuhlaupi ÍSÍ, útikennslu og vettvangsferðum. Á meðan sumir bekkir létu sér nægja að fara í vettvangsferðir í grenndarsamfélaginu t.d. Miðhús,Ný Fisk,Kjörbúðina, Þekkingarsetrið, Byggðasafnið eða Leikskólann Sólborg þá fóru nemendur 7. bekkjar á Reyki, 10. bekkur fór í vettvangsferð til Reykjavíkur, ásamt því þá fóru allir nemendur skólans í vorferðir.
Allir nemendur skólans tóku þátt í sprotaverkefninu Við erum með - virkt nemendalýðræði. Í tengslum við verkefnið voru haldin nemendaþing, skólaþing og valkvæðar jólastöðvar á unglingastigi. Lýðræðisleg vinnubrögð voru mjög áberandi í alls kyns vinnu og verkefnum á skólaárinu og unnið er að því að festa þau vinnubrögð í sessi í öllu okkar skólastarfi. Nemendur skólans tóku einnig þátt í verkefninu Göngum í skólann, Ólympíuhlaupi ÍSÍ, þá var hrekkjavökunni og öskudeginum gerð góð skil, Nemendur tóku þátt í Stóru upplestrarkeppninni og Hreystikeppninni, svo eitthvað sé nefnt. Ekki má gleyma öllum skemmtilegu verkefnunum í söng, leik og dansi í tengslum við árshátíðir skólans. Leiksýningin Rokkskólinn var settur upp í samstarfi við Tónlistarskólann, sýningin var algjörlega frábær og það voru margir leiksigrar hjá nemendum og ekki má gleyma því að starfsfólkið lagði á sig mikla og óeigingjarna vinnu til þess að gera sýninguna óaðfinnanlega.
Þá átti skólinn tvo fulltrúa á leiðtogafundi ungs fólks á Norðurlöndum í Hörpu. Einn nemandi skólans vann Söngvakeppni Samfés, tveir nemendur fengu viðurkenningu fyrir Ljóðasamkeppni, nemendur í 4. bekk tóku þátt í litlu upplestrarkeppninni. Nemendur 10. bekkjar kepptu við starfsmenn í fótbolta, allir nemendur skólans tóku þátt í krakkakosningum og enduðum skólaárið á frábæru skólarokki þar sem nemendur nýttu mismunandi styrkleika sína við að leysa þrautir og verkefni fyrir bekkinn sinn.
Hún sagði að skólastarf væri eins og keðja þar sem hver og einn hlekkur væri jafn mikilvægur sama hvort það væru nemendur, starfsfólk, aðstandendur og eða fólkið í grenndarsamfélaginu. „Það stefna allir í sömu átt þ.e. að nemendur nái sem bestum árangri í lífi og starfi“.
Þá talaði hún beint til nemenda þegar hún sagði: „Hafið ávallt hugfast að vöxtur, virðing, vilji og vinátta helst í hendur en krefst ákvörðunar ykkar um það hvernig þið nýtið ykkur það á hverjum degi. Að allir hafi náð framförum og aukið við félags þroska, hver á sinn hátt og þið hafið aukið við félags þroska ykkar og síðast en ekki síst lært enn betur að vera besta útgáfan af ykkur sjálfum“.
Foreldrafélagið gaf tveimur nemendur í hverjum árgangi viðurkenningu fyrir jákvæða leiðtogahæfni, Sorpeyðingarstöðin Kalka gaf bókarverðlaun fyrir góðan árangur í náttúrufræði á miðstigi. Þekkingarsetur Suðurnesja gaf verðlaun fyrir hæstu einkunn í náttúrufræði í 10. bekk. Fjöldinn allur af viðurkenningum voru veittar fyrir árangur í bóklegum greinum, verkgreinum, íþróttum og fyrir þátttöku í nemendaráði, skólaráði, Skólahreysti.
Við útskrift 10. bekkjar ávörpuðu Íris Rut Jónsdóttir og Örn Ævar Hjartarson umsjónakennarar nemendur og fóru yfir farin veg. Fyrir hönd útskriftarárgangsins töluðu þau Ásdís Elma, Guðjón Þorgils, Karma, Katrín Ýr, Oddný Soffía og Sara Dís og fóru yfir skemmtileg atvik og sögur af skólagöngu árgangsins. Margréti Böðvarsdóttur lestrarömmu skólans var færður þakklætisvottur fyrir óeigingjarnt sjálfboðastarf í þágu nemenda. Þá létu Ester Grétarsdóttir og Sveinbjörg Eydís Eiríksdóttir af störfum vegna aldurs og var þeim færð þakklætisgjöf frá starfsfólki að því tilefni. Einnig halda nokkrir aðrir starfsmen til annarra starfa og fengu þeir rós og þakkað fyrir samstarfið.
Þá þakkaði hún foreldrafélagi skólans fyrir gott starf og einnig þeim fjölmörgu fyrirtækjum og stofnunum sem tóku á móti nemendum skólans fyrir góðar móttökur og samstarf.
Að lokinni athöfn buðu foreldrar 10. bekkjar starfsfólki og nemendum til kaffisamsætis.
Smellið hér til að sjá myndir frá athöfninni og hér til að hlýða á söng frá kór Sandgerðisskóla.
Við þökkum nemendum og foreldrum kærlega fyrir samstarfið í vetur. Óskum ykkur ánægjulegs sumars og hlökkum til samstarfsins á komandi hausti
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is