- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Skólaslit Sandgerðisskóla fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans 3. júní s.l.. Skólaslitin voru tvískipt að þessu sinni, 1. - 7. bekkur kl. 12:30 þá tók við útskrift 10. bekkinga og skólaslit eldri nemenda kl. 14:00. Kór skólans hóf dagskránna undir stjórn Sigurbjargar Hjálmarsdóttur, kórstjóra. Einnig spiluðu bræðurnir Emil Akay og Benjamín Murat lag á Ukulele.
Skólaárið einkenndist af fjölbreyttum verkefnum og áskorunum Bylgja Baldursdóttir skólastjóri fór yfir skólaárið í ræðu sinni, hún sagði að Skólastarf væri eins og keðja þar sem hver og einn hlekkur væri jafn mikilvægur sama hvort það væru nemendur, starfsfólk, aðstandendur og eða fólkið í grendarsamfélaginu. „Það stefna allir í sömu átt þ.e. að nemendur nái sem bestum árangri í lífi og starfi“. Þá þakkaði hún foreldrum og forráðamönnum fyrir gott viðmót og samvinnu þegar Covid-19 faraldurinn kom að fullum krafti og hafði mikil áhrif skólastarfið. Hún fór yfir metnaðinn og samstöðuna þegar nemendur, starfsmenn, foreldrar og allt samfélagið tók þátt í Samrómi en fyrir þá vinnu fékk skólinn verðlaun fyrir frammúrskarandi árangur. Árangur var einnig á fleiri vístöðum á þessu skólaári, nemandi skólans vann Stóru upplestrarkeppnina, tveir nemendur skólans voru í 1. sæti í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Nokkrir nemendur skólans tóku þátt í hreystikeppninni. Bylgja ræddi einnig um mikilvægi listgreina og um þá samvinnu og gleði sem einkenndi vinnu nemenda og starfsmanna þegar yngra stigið vann að uppsetningu á leiksýningunni um Latabæ.
Hún talaði beint til nemenda þegar hún sagði: „Hafið ávallt hugfast að vöxtur, virðing, vilji og vinátta helst í hendur en krefst ákvörðunar ykkar um það hvernig þið nýtið ykkur það á hverjum degi. Öll hafið þið náð framförum, hver á sinn hátt og þið hafið aukið við félagsþroska ykkar og síðast en ekki síst lært enn betur að vera besta útgáfan af ykkur sjálfum“.
Foreldrafélagið gaf verðlaun fyrir jákvæða leiðtogahæfni, Sorpeyðingarstöðin Kalka gaf bókarverðlaun fyrir góðan árangur í náttúrufræði á miðstigi. Þekkingarsetur Suðurnesja gaf verðlaun fyrir hæstu einkunn í náttúrufræði í 10. bekk. Danska sendiráðið gaf bókaverðlaun fyrir hæstu einkunn í dönsku. Fjöldinn allur af viðurkenningum og verðlaunum voru veitt fyrir árangur í bóklegum greinum, verkgreinum, íþróttum og fyrir þátttöku í nemendaráði, skólaráði, Skólahreysti og síðast en ekki síst fyrir leiðtogahæfni.
Við útskrift 10. bekkinga ávarpaði Rakel Rós Ævarsdóttir umsjónarkennari nemendur og fór yfir farin veg. Fyrir hönd útskriftarárgangsins töluðu þær Berglind Ósk Lindbergsdóttir og Sara Mist Atladóttir og fóru yfir skemmtileg atvik og sögur af skólagöngu árgangsins. Aron Dagur Stissi nemandi í 9. Bekk spilaði á gítar við athöfnina.
Margréti Böðvarsdóttur lestrarömmu skólans var færður þakklætisvottur fyrir óeigingjarnt sjálfboðastarf í þágu nemenda.
Að lokinni athöfn buðu foreldrar 10. bekkinga starfsfólki og nemendum til kaffisamsætis.
Við þökkum nemendum og foreldrum kærlega fyrir samstarfið í vetur. Óskum ykkur ánægjulegs sumars og hlökkum til samstarfsins á komandi hausti
Sjá myndir frá skólaslitum með því að smella hér.
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is