- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Grunnskólanum í Sandgerði var slitið í 78 skiptið við hátíðlega athöfn 2. júní 2016. Athöfnin var tvískipt, annars vegar voru það skólaslit yngri nemenda sem fóru fram og hins vegar skólaslit eldri nemenda og útskrift nemenda úr 10. bekk. Veitt voru fjölmörg verðlaun fyrir framfarir, námsárangur, eljusemi og góða ástundun náms. Fanney D. Halldórsdóttir, skólastjóri hvatti nemendur og skólasamfélagið allt til dáða, henni var tíðrætt um knattspyrnu og íslenskan fótbolta sem sameinar okkur öll á einn eða annan hátt. Hún var sannspá varðandi gott gengi Íslenska landsliðsins. Líking hennar á liðsheildinni, kraftinum sem í okkur öllum býr og mikilvægi þess að standa saman, nýta kosti hvers, taka tillit til hvers annars og stefna hátt á einn eða annan hátt, átti vel við. Fanney sem og útskriftarnemendur minntust Dagbjarts Heiðars Arnarssonar sem féll frá árið 2011, á hjartnæman hátt. En minningin um yndislegan dreng hefur að sjálfsögðu lifað áfram í skólasamfélaginu, ekki síst í hjörtum bekkjarfélaga hans, vina og starfsfólks. Útskriftarhópurinn hélt sérstaklega góða ræðu, margs var að minnast en þrír af nemendum 10. bekkjar fluttu hver sinn part af ræðunni og gerðu það á skemmtilegan hátt. Að sama skapi flutti Ragnhildur L. Guðmundsdóttir umsjónarkennari þeirra stutta ræðu þar sem hún sagði frá kynnum sínum af hópnum og samfylgd þeirra á liðnum misserum. Fanney, skólastjóri sagði frá þeirri ákvörðun sinni að hverfa til annarra starfa. Hún sagði þakkaði öllum innilega fyrir samfylgdina gegnum árin og óskaði skólanum alls hins besta um ókomna framtíð. Vinnufélagar, nemendur og bæjaryfirvöld leystu hana út með gjöfum og blómaskreytingum. Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri notaði tækifærið í sinni kveðjuræðu til Fanneyjar og kynnti nýjan skólastjóra en Hólmfríður Árnadóttir hefur verið ráðinn til starfa við skólann og var hún boðin velkomin. Átta starfsmenn létu af störfum auk Fanneyjar, var þeim öllum þakkað innilega fyrir störf sín. Halla Júlíusdóttir var að ljúka þátttöku sinni á almennum vinnumarkaði og var henni þakkað sérstaklega fyrir áralangt óeigingjarnt starf sitt hjá Grunnskólanum í Sandgerði og farsælan starfstíma hjá Sandgerðisbæ. Samstarfsfólk og vinnuveitandi leystu hana einnig út með gjöfum og óskuðu henni alls hins besta. Að lokinni útskrift nemenda buðu foreldrar útskriftarhósins til kaffisamsætis sem var að vanda glæsilegt.
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is