- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Þriðjudaginn 22. ágúst sl. var Sandgerðisskóli settur í 85 sinn skólaárið 2023-2024 við hátíðlega athöfn á sal. Bylgja Baldursdóttir skólastjóri bauð nemendur, forráðamenn, starfsfólk og skólasamfélagið allt velkomið til samstarfs. Hún hvatti nemendur til að taka vel á móti nýjum nemendum og fjölskyldum þeirra og minnti um leið á leiðarljós skólans en þau eru Vöxtur, virðing, vilji og vinátta. Að Sandgerðisskóli er uppbyggingarskóli og starfar eftir hugmyndafræðinni Uppeldi til ábyrgðar þar sem stefnt er að því að nemendur þekki sjálfan sig, tilfinningar sínar og þarfir, læri af mistökum sínum og hafi að markmiði að vera besta útgáfan af sjálfum sér í leik og starfi. Bylgja sagði frá því að fyrrverandi skólastjórnendur skólans þær Fanney Dóróthe Halldórsdóttir og Elín Yngvadóttir hafi gefið skólanum fána Uppbyggingarstefnunnar að gjöf en þær komu að innleiðingu stefnunnar þegar hún var tekinn upp í Sandgerðisskóla 2008, hún þakkaði þeim fyrir velvild í garð skólans.
Nýir starfsmenn voru kynntir og boðnir velkomnir til starfa. Fram kom að á komandi skólaári væri lögð sérstök áhersla á að efla nemendur í læsi, þrautseigju og trú á eigin getu. Þá sagði hún frá því að skólinn fékk úthlutaðan styrk frá Sprotasjóði fyrir verkefninu, Við verum með - virkt nemendalýðræði sem á að efla nemendur í lýðræðislegum vinnubrögðum. Sandgerðisskóli er einnig heilsueflandi grunnskóliog verða hin ýmsu verkefni tengd heilsueflingu í vetur. Nú eru rúmlega 300 nemendur skráðir í skólann. Fyrsta vikan í skólanum einkennist af uppbroti og gleði í kringum bæjarhátíð Suðurnesjabæjar. Að loknu erindi skólastjóra héldu nemendur með umsjónarkennurum sínum og stuðningsfulltrúum í heimastofur þar sem farið var stuttlega yfir helstu áherslu atriði skólaársins og nýir nemendur kynntir. Ekki var annað að sjá en að nemendur væru kátir og glaðir, ánægðir að hitta vini sína og skólasystkin og tilbúnir til að takast á við ný og spennandi verkefni á komandi skólaári.
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is