Sandgerðisdagar í grunnskólanum

Síðasta vika var viðburðarík hjá okkur í grunnskólanum. Á miðvikudeginum fór fram setning Sandgerðisdaga fyrir elstu nemendur leikskólans og grunnskólanemendur. Elsti og yngsti og yngsti nemandi skólans drógu fána Sandgerðisdaga að húni ásamt Sigrúnu Árnadóttur, bæjarstjóra og Ólafi Þór Ólafssyni, forseta bæjarstjórnar. Þetta verkefni kom í hlut Björns Ellerts Pálssonar í 10. bekk og Sesselju Ástu Svavarsdóttur, nemanda í 1. bekk. Villi og Sveppi komu og skemmtu nemendum við mikinn fögnuð viðstaddra. Í hádeginu bauð svo Sandgerðisbær öllum í pizzaveislu. Á föstudegi fór síðan fram ratleikur í tilefni Sandgerðisdaga. Nemendur leikskóla og yngri nemendur grunnskólans fóru um alla skólalóð í Pokimon-Bingo. Nemendum var skipt upp í hópa þvert á aldur. Hóparnir kepptust við að safna Pokimonköllum á Bingospjöldin sín. Eldri nemendur ferðuðust um allan bæ í ratleik sem einnig var byggður upp á Pokimon. Flestir nemendur í 8. bekk nutu vikunnar í fermingarferðalagi í Vatnaskógi en þeir sem heima voru tóku fullan þátt í skólastarfinu. Þeir unnu í almennu námsefni, hjálpuð til í yngri bekkjum og tóku þátt í tilbreytingu. Virkilega skemmtileg vika að baki hjá okkur.