- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Sandgerðisskóli er eins og margir aðrir grunnskólar að taka þátt í grunnskólakeppni Samróms en keppnin stendur til miðnættis 26. janúar og er keppnin um verðlaunasæti æsispennandi þar sem við eigum möguleika á að vinna keppnina.
Nemendur hafa verið mjög duglegir við að lesa í skólanum og nýttu m.a. inni frímínútur í dag til að lesa.
Allir, foreldrar, ömmur og afar mega líka taka þátt til að hjálpa skólanum að vinna þessa keppni en glæsilegir vinningar eru í boði, m.a. er þrívíddarprentari og tölva fyrir fyrsta sæti!
En af hverju skiptir Samrómur máli?
Á síðustu árum hefur verið bylting í raddtækni og því hvernig við notum röddina til þess að stjórna tækninni. Íslenskan á undir högg að sækja vegna þeirra öru tæknibreytinga en mörg okkar eiga nú þegar samskipti við tölvur og ýmis tæki á erlendu tungumáli. Fólk mun nota röddina í auknu mæli til að stýra hvers kyns tækjum og tólum en vandinn er sá að tækin skilja ekki íslensku.
Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að missa ekki af lestinni og í ljósi þess var hafin vinna við stórt samstarfsverkefni til þess að gera íslenskuna gjaldgenga í tölvum og tækjum. Að því koma íslenskir háskólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök, sem munu á næstu árum þróa nauðsynlega innviði fyrir hugbúnað sem skilur og talar íslensku. Samrómur verður hluti af þessu verkefni, opið gagnasafn raddsýna fyrir íslensku sem hver sem getur notað til þess að þróa sínar máltæknilausnir. Með þessu tryggjum við öryggi íslenskunnar á stafrænum tímum.
Með því að taka þátt í verkefni Samróms hafa nemendur, fjölskyldur þeirra og starfsfólk Sandgerðisskóla lagt sitt að mörkum við að gera íslenskuna gjaldgenga sem tæknimál.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá leggja nemendur sig fram við að taka þátt og hafa bæði gagn og gaman af.
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is