Jógaæfingar, slökun og hugleiðslu

Frá og með miðvikudeginum 13. janúar fá allir nemendur Grunnskólans í Sandgerði aftur þjálfun í jógaæfingum, slökun og hugleiðslu en þessir tímar voru einnig í boði í september og höfðu góð áhrif. Nemendur skólans munu næstu vikur fara í jógaleikfimi og vonast er til þess að nemendur mæti í teygjanlegum fatnaði þá daga sem LÍFSLEIKNI / LISTIR er merkt í stundatöflu nemandans.

HVAÐ ER JÓGA?

Allir geta stundað jóga. Jógastellingar þjálfa hvern líkamshluta, teygja og styrkja vöðva, liðbönd og liðamót, hrygg og stoðgrindina í heild. Þær hafa ekki einungis áhrif á ytra borð líkamans, vöðva og húð, heldur einnig líffæri, kirtla og taugakerfi, með öðrum orðum; áhrifa þeirra gætir alls staðar. Jógastellingar draga úr spennu, huglægri og líkamlegri. Öndunaræfingarnar efla líkamsstarfsemi, eru slakandi og hressandi og skíra hugann. Ástundun jákvæðrar hugsunar og íhugunar eykur einbeitingu, hugarorku og athygli. Námsmenn hafa fundið vel fyrir þessu þegar þeir eru í námi og stunda jafnframt jóga. Margir iðka jóga til að styrkja líkamann og fegra því jógaæfingar rétta úr líkamanum, svo þú berð þig betur. Aðrir stunda jóga til þess að læra að slaka vel á og tengjast sjálfum sér betur og tilfinningum sínum á jákvæðan hátt. Kær jógakveðja, Marta Eiríksdóttir