Hvað á þessi að heita? - Nafnasamkeppni fyrir 4.-7. bekk

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur ákveðið að efna til nafnasamkeppni um nafn á lukkudýri Smáþjóðaleikanna og leita til grunnskólabarna um hugmyndir. Um skemmtilegan leik er að ræða og vonum við að sem flestir skólar sjái sér fært að taka þátt. Hér fyrir neðan eru helstu reglur keppninnar, saga lukkudýrsins og nánari upplýsingar um Smáþjóðaleikana.

Um nafnasamkeppnina:

   Þátttökurétt eiga allir 4. – 7. bekkir í grunnskólum landsins.

 · Hver bekkur kemur sér saman um eitt nafn.

 

· Tillögu um nafn ásamt rökstuðningi skal skilað með tölvupósti á info@iceland2015.is fyrir 5. febrúar þar sem fram kemur nafn bekkjar, skóla og ábyrgðarmanns.

 

· Tekið verður tillit til rökstuðnings með nafni – þ.e. af hverju á lukkudýrið að fá tiltekið nafn.

 

· Valnefnd skipuð fimm aðilum mun velja nafn á lukkudýrið úr innsendum tillögum. Ef margar tillögur koma inn með vinningsnafninu verður einn bekkur dreginn út og er sá vinningsbekkurinn.

 

· Laugardaginn 21. febrúar eru 100 dagar í leikana og þá verður nafn lukkudýrsins kynnt á blaðamannafundi ásamt sigurvegara nafnasamkeppninnar – dregið þann dag ef þarf.

 

Vinningur:

 

· Tölvubúnaður til skólans að verðmæti 100.000 krónur frá Advania.

 

· Eitt lukkudýr til eignar fyrir hvern nemanda í bekknum.

 

· Lukkudýrið kemur í heimsókn í skólann.

 

· Heiðurinn af því að eiga hugmyndina að nafni lukkudýrsins.

 

Saga lukkudýrsins

 

Það er eldgos á Íslandi. Í eldgosinu má sjá hvar lítill gosdropi fæðist. Hann opnar augun og á sama tíma þeytist hann upp úr gosinu og upp í loft. Gosdropinn svífur í loftinu og lendir á jökli þar sem hann fær ís á halann sinn. Hann skoppar og þeytist aftur upp í loft og áfram yfir hraun og mosa þar sem hann fær mosafeldinn sinn. Hann lendir að lokum á stuðlabergi þar sem hann fær stuðlabergsskóna sína. Litli náttúrukrafturinn er orðinn að lukkudýri Smáþjóðaleikanna á Íslandi 2015.

 

Lukkudýr Smáþjóðaleikanna 2015 ber sterk einkenni íslenskrar náttúru og þann náttúrulega kraft sem einkennir land og þjóð. Við hönnun á lukkudýrinu var merki leikanna haft að leiðarljósi, en merkið endurspeglar náttúru íslands í takt við umhverfisvæna stefnu leikanna. Lukkudýrið er mjög litríkt. Hárið er eldur úr eldgosi, höfuðið er sólin sjálf, búkurinn er úr mosa, halinn er þakinn ísmolum úr jökli, fótleggirnir eru úr vatni og loks stendur lukkudýrið vel á fótum úr stuðlabergi. Lukkudýrið er einnig lipurt og sterkt. Hægt er að skoða myndband af því hvernig lukkudýrið varð til hér http://www.iceland2015.is/islenska/natturulegur-kraftur/lukkudyrid/

 

 

Um Smáþjóðaleikana

 

Smáþjóðaleikarnir verða haldnir á Íslandi 1.-6. júní 2015. Smáþjóðaleikarnir eru evrópsk íþróttakeppni, í anda Ólympíuleikanna og undir verndarvæng Alþjóðu Ólympíunefndarinnar. Keppnin fer fram á tveggja ára fresti til skiptis hjá einni af smáþjóðunum níu. Smáþjóðir eru þjóðir með íbúatölu undir einni milljón en í þeim flokki eru; Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marínó og Svartfjallaland. Leikarnir voru fyrst haldnir í San Marínó árið 1985 og eiga því 30 ára afmæli á næsta ári, þegar þeir verða haldnir á Íslandi í annað sinn.

 

Smáþjóðaleikarnir eru stærsta verkefni sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur tekið að sér. Búist er við að um 2500 manns komi að leikunum með einum eða öðrum hætti, þar af eru 800 keppendur. Reiknað er með um 25-30.000 áhorfendum.

 

Á Smáþjóðaleikunum er keppt í átta einstaklingsíþróttagreinum sem eru frjálsíþróttir, sund, júdó, skotfimi, golf, fimleikar, tennis og borðtennis, og tveimur hópíþróttagreinum, sem er körfuknattleikur og blak (einnig strandblak) á leikunum 2015.

 

Megin vettvangur leikanna verður í hjarta íþróttaiðkunar í Reykjavík, Laugardalnum, þar sem átta keppnisgreinar af ellefu fara fram. Má segja að dalurinn verði eins konar Ólympíuþorp á meðan á leikunum stendur. Markmið mótshaldara er að skapa skemmtilega umgjörð og stemningu í Laugardalnum. Þar verður mikið um að vera dagana 1. – 6. júní, en auk íþróttaviðburðanna verður ýmis konar skemmtun á göngustígum á milli mannvirkja og öðrum svæðum í dalnum.

 

Lögð er áhersla á að leikarnir verði náttúrvænir og er eitt af slagorðum leikanna  „Náttúrulegur kraftur“ sem vísar bæði til þess krafts sem býr í íþróttafólkinu, en er einnig skírskotun til kraftsins í íslenskri náttúru. Keppendur og fylgdarlið munu búa á hótelum við Laugardalinn til að takmarka sem mest þann akstur sem oft vill fylgja íþróttakeppnum og er það liður í verndun umhverfisins.

 

Frítt verður inn á leikana og er það ósk Íþrótta- og Ólympíusambandsins að sem flestir geti notið þeirra og um leið þeirrar stemningar sem mót af þessari stærðargráðu hefur í för með sér. Meiri upplýsingar má finna á heimasíðu leikanna á slóðinni http://www.iceland2015.is/ .