- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Við ætlum að halda uppá Hrekkjavökuna í Suðurnesjabæ og hvetjum alla íbúa til þess að taka þátt. Hátíðin mun bera þess merki að við lifum á skrýtnum tímum og munum við haga allri hegðun í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis og almannavarna.
Síðustu vikurnar í október ætlum við að vinna í því að fagna Hrekkjavökunni sem á rætur að rekja til Evrópu og þar á meðal til Norðurlanda. Skólarnir okkar, foreldrar, bókasöfn, bæjarskrifstofur, nemendaráðin og félagsmiðstöðvar hafa m.a. tekið sig saman og ætla í sameiningu að bjóða uppá fjölbreytta dagskrá.
Í stað þess að ganga hús úr húsi hvetjum við íbúa til þess að taka þátt í sínu eigin bingói, kíkja á bókasafnið, fara í Hrekkjavökugöngutúra og fleira skemmtilegt sem ekki krefst snertingar eða mikillar nálægðar. Þá eru fjölskyldur einnig hvattar til þess að gera sér glaðan dag saman.
Við höfum m.a. útbúið Bingóspjöld og Kahoot leiki sem hægt er að grípa til við þetta tækifæri.
Við hvetjum íbúa til að taka af sér myndir, í undirbúningi Hrekkjavökunnar og við skemmtileg tækifæri og merkja með @sudurnesjabaer á instagram. Heppnir aðilar verða dregnir út og hljóta glaðning.
Bókasafn Suðurnesjabæjar í Sandgerði
Laugardagurinn 31. október – Hrekkjavaka
Íbúar eru hvattir til að klæða sig upp, setja ljós út í glugga eða fyrir utan hús og skreyta. Nánar um dagskrá laugardagsins birtist síðar en tekið verður mið af sóttvarnaaðgerðum og í samráði við aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar.
Fróðleikur um Hrekkjavökuhátíðina
Í mörgum evrópskum löndum, þar á meðal á Íslandi og hinum Norðurlöndunum auk keltneskra landa, var árinu skipt í tvær árstíðir, vetur og sumar, í stað fjögurra eins og við gerum í dag. Menn töldu tímann í vetrum og nóttum fremur en í árum og dögum. Veturinn var eins og nóttin og var talin koma fyrst og þar sem mánaðamót október og nóvember er tími vetrarbyrjunar var það einnig tími nýárs. Á þessum tíma tóku kuldinn og myrkrið við, jörðin sofnaði og dauðinn ríkti. Á Íslandi til forna var í lok október haldin hátíð sem kölluð var veturnætur og þá var haldið dísablót (disting). Í norðurhluta Skotlands og á Írlandi er á þessum tíma sem nú er að ganga í garð enn haldin hátíð sem á gelísku heitir Samhain, hátíð hinna dauðu. Í seinni tíð hefur hún fengið heitið Halloween. Nánar er hægt að lesa sig til um Hrekkjavökuna og aðra siði á Vísindavefnum.
Við hlökkum ótrúlega mikið til og hvetjum alla íbúa, unga sem aldna til þess að gera dagana skemmtilega með okkur.
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is