- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Nokkrar breytingar hafa orðið í starfsliði skólans. Egill Ólafsson fráfarandi húsvörður er í veikindaleyfi og mun láta af störfum í kjölfarið. Í hans stað hefur Hannes Jón Jónsson verið ráðinn til starfa. Sóley Gunnarsdóttir hefur horfið til annarra starfa innan bæjarins, henni er óskað alls hins besta á nýjum vettvangi um leið og Margrét Bjarnadóttir, sem færði sig um set innan skólans, er boðin velkomin til starfa sem þroskaþjálfi yfir Ásgarði, einhverfudeild. Tveir stuðningsfulltrúar létu af störfum um áramót, Guðrún Arthúrsdóttir og Halldóra Ósk Ólafsdóttir hafa snúið til annarra starfa, þeim er óskað allt hins besta og þökkuð samvinnnan. Aftur á móti hóf Helena Piechnik störf sem stuðningsfulltrúi í 1. bekk sem og í námsveri fyrir nemendur með íslensku sem annað tungumál. Ósk Matthildur Arnarsdóttir hefur líka verið ráðin sem stuðningsfulltrúi og fylgir hún nemanda úr 1. bekk. Að síðustu hefur Ómar Jóhannesson sem kom inn í afleysingar verið ráðinn í fullt starf grunnskólankennara. Annars er skólastarfið fróðlegt, lifandi og skemmtilegt, nemendur takast á við fjölbreytt viðfangsefnið í bland við hefðbundið starf og leik. Í janúar kom geðlæknirinn, Guðrún Dóra í heimsókn og var með erindi um vímuefnaneyslu og mögulegar afleiðingar hennar, fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Þorgrímur Þráinsson var í janúar með tvö erindi í skólanum. Nemendur í 9. og 10. bekk hlýddu á erindi hans „Vertu ástfanginn af lífinu“ og nemendur í 5., 6. og 7. bekk lærðu um sterka liðsheild, mikilvægi þess að vera góð persóna og taka þátt í að skapa góða liðsheild. Lestrarátakið Allir lesa er að hefjast og mun standa yfir frá 27. janúar til 19. febrúar og í kjölfarið verður uppskeruhátíð á Öskudegi, 1. mars. Tveir leiðbeinendur kíktu í 10. bekk og fóru yfir námsefnið Fjármálavit þar sem farið var yfir fjármál, sparnað og ýmislegt tengt peningaviti. Sjálfsskömmtun nemenda í matsal hefur nú verið tekin upp og mælist afar vel fyrir bæði á meðal nemenda og starfsfólks. Stefnt er á skíðaferði í Bláfjöll, 2. febrúar fyrir nemendur í 7. – 10. bekk. Slíkar dagsferðir hafa mælst afar vel fyrir og heppnast vel. Nú er bara að krossa fingur og vonast eftir nægum snjó og góðu færi. Að lokum má nefna að nemendur 10. bekkjar stefna á að fara ásamt umsjónarkennara sínum, stuðningsfulltrúa og náms- og starfsráðgjafa á Skólaþing á Alþingi 9. febrúar nk. Í ferðinni ætla nemendur einnig að kynna sér nokkra framhaldsskóla og heimsækja RÚV og skyggnast inn í það starf sem fer þar fram. Í lok ferðarinnar er svo hugmyndin að borða saman á Hamborgarafarbrikunni.
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is