Fréttatilkynning frá Námsmatsstofnun

Námsmatsstofnun


Frétttilkynning


Einkunnir leiðréttar í samræmdum könnunarprófum í stærðfræði í 4. bekk.


Komið hefur í ljós að mistök voru gerð við útreikning einkunna í samræmdu könnunarprófi í stærðfræði í 4. bekk nú í haust. Rangt var gefið fyrir fjórar spurningar sem getur haft þau áhrif að það muni allt að einum heilum í einkunnum nemenda.


Námsmatsstofnun leiðrétti strax svarblað fyrir viðkomandi stærðfræðipróf á heimasíðu sinni og hóf vinnu við að endurreikna einkunnir allra nemenda. Leiðréttar einkunnir hafa nú verið færðar í gagnagrunn og eru aðgengilegar fyrir skóla. Eru allir grunnskólar beðnir að afhenda nemendum leiðrétt einkunnablöð.


Samkvæmt lögfræðiáliti er Námsmatsstofnun ekki heimilt að lækka áður útgefnar einkunnir til nemenda á
samræmdum könnunarprófum. Því breytast niðurstöður sem birtar eru nemendum einungis til hækkunar en
einkunnir lækka ekki. Hins vegar munu heildarniðurstöður fyrir landið allt, landssvæði og einstaka skóla vera byggðar á réttm tölum.


Þessi leiðrétting leiðir til þess að einkunnir hækka hjá 2.058 nemenda af þeim 3.936 sem tóku prófið eða um 52%.  Hækkunin var á bilinu 0,5 til 1. Ef til lækkunar hefði komið hefðu einkunnir 293 nemenda lækkað eða um 7,5%.


Námsmatsstofnun harmar þessi mistök og biður nemendur og aðra viðkomandi afsökunar á þeim. Stofnunin er nú að fara aftur yfir öll próf sem lögð voru fyrir nú í haust og mun sannreyna að einkunnir úr þeim séu réttar. Einnig verður farið yfir alla verkferla við úrvinnslu samræmdra könnunarprófa með það að markmiði að koma í veg fyrir mistök sem þessi í framtíðinni.