Forvarnafundur með lögreglu og forráðamönnum nemenda í 9. og 10. bekk.

Góð mæting var á fræðslufund fyrir foreldra og forráðamenn sem haldinn var í skólanum fimmtudaginn 8. desember sl. Þar var á ferðinni Kristján Freyr Geirsson, betur þekktur sem Krissi lögga, með erindi varðandi áhættuhegðun ungmenna. Hann sagði foreldrum frá þeirri hlið sem lögreglan þekkir og fór yfir einkenni neyslu og breyttra lifnaðarhátta ungmenna sem leiðst hafa af réttri braut. Hann fór yfir rannsóknir og ýmsar staðreyndir, sýndi myndir úr samfélaginu okkar, sýndi tól og tæki til neyslu og ræddi við foreldra um ástandið. Krissi hvatti til samstöðu og fór yfir mikilvægi þess að hlúa vel að ungmennunum okkar og seinka neyslu þeirra á löglegum sem og ólöglegum efnum eins og kostur er. En á fundinum kom fram að skóli og foreldrar hafa áhyggjur af aukinni áhættuhegðun nemenda m.a. með notkun rafrettna og grasreykinga. Mikilvægt er að foreldrar og skóli séu vel upplýst um neyslu, neyslumynstur, viðbrögð og forvarnir, þannig erum við betur í stakk búin til að standa þétt við bakið á nemendum og hvetja til jákvæðra verka.