Fjölbreytt og skemmtilegt skólastarf í desember

Desembermánuður er einn skemmtilegasti tími ársins. Skólafólk tekst þá á við afar fjölbreytt verkefni sem gleðja jafnt nemendur sem og starfsfólk skólans.

Námsmat

Nemendur þreyttu formleg próf og kennarar mátu hæfni þeirra, leikni, árangur og framfarir sem nemendur fengu síðan upplýsingar um í vitnisburði sínum á litlu jólunum.

Heimsóknir; fræðsla, upplestur og forvarnir

Nokkrir gestir kíktu við hjá okkur í skólanum í desember. Gunnar Helgason kom og las upp úr bók sinni Rangstæður í Reykjavík. Sigríður Dúa Goldsworthy kom og las úr bók sinni Flöskuskeytið sem og Sirrý Sig. sem las upp úr bók sinni Eitt leiðir af öðru. Móðir nemanda í 9. bekk kom í heimsókn í bekkinn ásamt fatlaðri frænku sinni og ræddi við nemendur um samskipti og hugtakið hamingju. Alma frá Björgunarsveitinni Sigurvon í Sandgerði kom og fjallaði um ábyrga notkun á flug- og skoteldum. Hún sýndi myndir og ræddi um áhættuna við að meðhöndla flugelda á rangan hátt.

Tarzan

Ekki má gleyma að segja frá óhefðbundinni hreyfingu nemenda í lok desember. En síðustu vikuna fyrir jól er ekki hefðbundin íþróttakennsla. Hver hópur fær tíma í íþróttahúsinu í umsjón íþróttakennara en þessi árlegi Tarzan-leikur er alltaf jafn vinsæll hjá nemendum.

Comeniusarverkefni

Skólinn tekur þátt í tveimur Comeniusarverkefnum. Hluti af öðru verkefninu er að kynna jólasveinana sem part af álfa og tröllamenningu landsins. Hópur vann að upptökum á jólasveinasögu á aðventunni. Dansar voru æfðir og teknir upp á myndband til kynningar á dansmenningu landsins. Allir nemendur komu að gerð ullarengla sem síðan voru seldir fyrir Water aid verkefni en sú söfnun byggist á því að stefna að því að öll þorp í heiminum hafi aðgang að hreinu vatni. En þátttaka í því er liður í Comeniusarverkefninu. Nemendur unnu einnig jólakort sem Sandgerðisbær keypti og nýtti sem sín jólakort þetta árið.

Jólastemning, bingó, Jólasamvera og litlu-jólin

Á aðventunni voru nemendur duglegir að skreyta stofurnar sínar, útbúa jólakort og taka þátt í fjölbreyttri vinnu á jólastöðvum. Á jólastöðvum gerðu eldri nemendur meðal annars konfekt og lærðu og dönsuðu skottís. Einn dagur var sérstök stemning þegar allir voru hvattir til að mæta með jólasveinahúfur, vera í jólapeysum eða skreyta sig á annan jólalegan hátt.

Nemendur í 2. SFÞ komu saman með foreldrum sínum, bjuggu til fallega muni úr leir fyrir jólin og áttu góða samverustund í byrjun desember.

Árlegt jólabingó 9. bekkjar fór fram um miðjan desember og stóðu nemendur sig með mikilli prýði bæði við að afla vinninga, undirbúa bingóið, vinna á bingóinu og við frágang. Fjölmargir bæjarbúar mættu til leiks þannig að úr varð hin mesta skemmtun í skemmtilegum leik og vinningar sem veittir voru fjölbreyttir og veglegir. En fyrirtæki á suðurnesjum hafa stutt vel við nemendur í þessari fjáröflun sem er ein stærsta fjáröflunin fyrir skólaferðarlaginu sem nemendur í 9. bekk fara í á vordögum. Nemendur í 9. bekk vilja hér með koma á framfæri kæru þakklæti.

Hefð hefur skapast fyrir jólasamveru undir lok haustannar. Þá æfa nemendur söng eða annað atriði til að flytja á sal skólans, gjarnan tengt jólum auk þess sem 6. bekkur æfir upp og sýnir helgileik. Þá er settur á svið leikþáttur með sálmasöng sem byggður er að fæðingu frelsarans. Nemendur skólahóps leikskólans eru sérstakir gestir á jólasamverunni, njóta dagskrárinnar og undirbúa sig fyrir þátttöku í árshátíð á vordögum.

Á litlu-jólunum sameinast nemendur í heimastofum sínum, hlíða á jólasögu og/eða jólaguðspjallið hjá umsjónarkennara sínum og samstarfsfólki. Kveikja á kertum í jólaskreyttum stofum sínum, borða smákökur og mandarínur og skiptast að lokum á litlum pökkum. Þessi samvera er alla jafna hátíðleg og gefandi fyrir nemendur jafnt sem starfsfólk og starfsfólk. Þegar líður að hádegi koma allir nemendur ásamt starfsfólki saman á sal og borða hangikjöt með öllu tilheyrandi. Að lokum fá nemendur vitnisburð sinn afhentan, kveðja og fara heim í jólafrí.

Heimsóknir í safnaðarheimilið og kirkjuna

Öllum nemendum stóð til boða að fara í heimsókn í kirkjuna eða safnaðarheimilið á aðventunni. Eldri nemendur fór í rútuferð suður að Hvalsnesi og hittu Séra Sigurð Grétar í hátíðlegri og rólegri aðventustund. Yngri nemendum var boðið til leiksýningar í safnaðarheimilinu þar voru á ferðinni félagar úr Stoppleikhópnum sem fluttu leikþátt fyrir nemendur í boði kirkjunnar.

Fleiri yndir frá skólastarfinu er að finna í myndasafni HÉR