- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Dagur gegn einelti
Dagurinn í dag er tileinkaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu öllu. Þetta er í þriðja sinn sem hann er haldinn og er markmiðið að vekja athygli á þessu grafalvarlega málefni og að fá fólk til umhugsunar um hvernig hægt er að koma í veg fyrir einelti í skólum, vinnustöðum og í þjóðfélaginu.
8. nóvember, Dagur gegn einelti, er ætlaður til að fá alla til að hugleiða hvernig hægt er að stuðla að jákvæðara samfélagi, jákvæðari hugsunarhætti og jákvæðari hegðun gagnvart öðru. Nemendur unnu með vinabekk sínum friðardúfur sem verða hengdar upp sem listaverk í loftið á skólanum, einnig kom Beggi blindi með fræðslu til unglingastigs um framkomu, samstöðu og virðingu.
Forvarnafræðsla um einelti hefur verið öflug í samfélaginu, skólum og fjölmiðlum. Við höfum lagt áherslu á hvernig við komum í veg fyrir að einelti eigi sér stað, grípa inn í á réttum tíma, því það er auðveldara að kveikja ekki eldinn, en að slökkva hann. Skólinn leggur áherslu á bekkjarfundi, tengslakannanir, fræðslumyndbönd, verkefnavinnu auk þess sem hver og einn umsjónarkennari tekur reglulega (a.m.k 1x á önn) einstaklingsviðtöl við nemendur.
Þegar ég spurði nemendur á unglingastigi, hvernig við gætum komið í veg fyrir einelti var áberandi hversu margir svöruðu að það sem skipti mestu máli væri góður bekkjarandi. Að öllum í bekknum þætti vænt um hvert annað og treysti hvert öðru. Þetta er að sjálfsögðu alveg hárrétt og þurfum við sem samfélag að hjálpast að með það. Það er undir okkur kennurum komið að þjappa hópnum saman, kenna þeim samkennd og að bera ábyrgð á sinni hegðun. Að hlusta á nemendur, vinna traust þeirra og styðja þau.
Foreldraábyrgðin er ekki minna mikilvæg. Það er á ábyrgð foreldrana að hjálpa við að bekkjarandinn sé góður. Foreldrar ala upp sín börn, kenna þeim hvernig á að koma fram við aðra og standa með sínum börnum. Foreldrasamskipti skipta öllu máli, að foreldrar sem eiga börn í sama bekk eiga að geta talað við hvert annað, sérstaklega í svona litlu samfélagi eins og Sandgerði. Að geta talað saman um börnin ykkar, geta hringt í hvert annað ef þið hafið áhyggjur af samskiptum eða gjörðum barnanna fyrir utan skóla, bæði þegar þau eru að leika með vinum eða tala við félaga á netinu. Mikilvægt er að þið talið líka við skólann ef það er eitthvað sem ykkur finnst rétt að skólinn viti af. Við sem skóli reynum eftir mesta megni að standa vörð um líðan nemenda, en við vitum oft ekki hvað er að gerast eftir skóla og er því mikilvægt að samstarf skóla við foreldra sé gott.
Í dag er nær alltaf tekið fram í atvinnuauglýsingum að einstaklingur sé með góða færni í mannlegum samskiptum. Það er verið að auglýsa eftir færninni að koma vel fram, sýna öðrum virðingu og kurteisi. Það er því ein mesta ábyrgð skólans að útskrifa nemendur sem virka og flotta samfélagsþegna. Útskrifa nemendur sem horfa björtum augum til framtíðar, nemendur sem vilja vera besta útgáfan af sjálfum sér á hverjum degi og nemendur sem bera virðingu fyrir öðrum. Með góðu samstarfi, samtali og virðingu náum við ætlunarverki okkar í sameiningu.
Að lokum hvet ég ykkur til að fara inn á www.gegneinelti.is ásamt börnum ykkar eða nákomnum og skrifa undir þjóðarsáttmálann gegn einelti.
Á tenglinum hér má sjá myndir sem nemendur gerðu um vináttu í 4. og 7. bekk. http://www.youtube.com/watch?v=mWbnXS5zA-I&feature=youtu.be
Fyrir hönd eineltisteymis Grunnskólans í Sandgerði
Fríða Stefánsdóttir
Myndir í myndasafni HÉR
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is