- Fréttir
- Skólastarfið
- Nemendur og Foreldrar
- Myndir
- Starfsfólk
- Um Skólann
Á aðventunni er skólalífið í Sandgerði fjölbreytt og skemmtilegt. Nemendur og starfsfólk reyna að njóta aðventunnar, finna hinn sanna anda jólanna saman og njóta samvista við nám, leik og störf. Stundaskrá heldur sér að mestu fyrri hluta desembermánaðar en tilbreytingin eykst eftir því sem liður á mánuðinn. Ekki fer fram hefðbundið mat með jólaprófum eins og margir þekkja frá fyrri tíð. Nemendur munu fá mat samkvæmt hæfniviðmiðum fyrir haustönn en það námsmat byggist á blönduðu mati sem fer fram jafnt og þétt yfir alla önnina. Á aðventunni fóru nemendur í heimsókn í safnaðarheimilið, Gunnar Helgason og Gerður Kristný komu í heimsókn og lásu upp úr bókum sínum fyrir nemendur. Hefð hefur skapast fyrir Tarzan-leik í íþróttatímum í desember og mæltist sú tilbreyting afar vel fyrir eins og venja er. Í náttúrufræði fengu eldri nemendur verklega líffærakennslu þegar Bylgja leiddi þá í allan sannleikann varðandi helstu innyfli svína með raunverulegum líffærum. Krissi lögga hitti elstu nemendur skólans og fór yfir nokkur afar brýn málefni með krökkunum varðandi, fíkniefni, ábyrga hegðun, samskipti og heilbrigða lifnaðarhætti. Tvo föstudaga í desember voru allir sérstaklega hvattir til að mæta í jólalegum fatnaði og voru jólapeysur afar áberandi þá daga. Samvera fór fram á sal að morgni dags flesta daga í desember, þar sem nemendur og starfsfólk sungu jólalög við undirleik svo undirtók í húsinu. Þegar nær leið jólum var nemendum skipt upp í hópa sem í þrjá daga fengust við fjölbreytt verkefni á vinnustöðvum sem allar tengdust jólunum á einn eða annan hátt. Nemendur skreyttu stofur sínar, æfðu jólasöngva og æfðu atriðið fyrir jólaskemmtun. Á jólaskemmtuninni fór hver bekkur frá fyrsta og upp í sjötta bekk með sitt atriði. En sérstakir gestir voru elstu nemendur leikskólans Sólborgar. Hápunktur skemmtunarinnar var að vanda helgileikur 6. bekkjar en í lok hans tóku allir gestir undir í fjöldasöng. Síðasta skóladag ársins borðuðu allir nemendur og starfsfólk skólans saman hátíðarhádegisverð, hangikjöt með öllu tilheyrandi. Að hádegisverði loknum héldu nemendur með umsjónarkennurum í sínar heimastofur og héldu þar hin svokölluðu Litlu-jól. Þá áttu nemendur hátíðlega stund með kennurum sínum, kveiktu á kertum, ýmist var lesin jólasaga eða helstu atriði jólaguðspjallsins rifjuð upp. Nemendur skiptust á litlum gjöfum og jólakveðjur voru sendar milli manna. Að því búnu sóttu eldri vinabekkir þá yngri í sínar stofur og allir héldu saman á sal að nýju. Nemendur og starfsfólk gengu í kringum jólatré og sungu saman við undirleik kennarahljómsveitarinnar en forsöngvarar voru nokkrar kraftmiklar söngkonur úr eldri hópi skólakórsins að ógleymdum hæfileikaríkum nemanda sem sá um slagverk. Að ballinu loknu héldu nemendur heim á leið, sælir og glaðir í langþráð jólafrí.
Skólastræti | 245 Suðurnesjabæ Sími á skrifstofu: 425 3100 Netfang: grunnskoli@sandgerdisskoli.is |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 425 3100 / grunnskoli@sandgerdisskoli.is