3. bekkur brá sér af bæ í dag og heiðraði höfuðborgina með nærveru sinni.

Tilhlökkunin var mikill hjá 3. bekkingjum þegar þeir mættu til starfa í morgun en hópurinn var á leið í langþráða menningarferð til Reykjavíkur. Ferðin var skipulögð af umsjónar- og heimilisfræðikennurunum. Skapast hefur hefð fyrir því að 3. bekkingjar í Grunnskólanum í Sandgerði fari í heimsókn í Mjólkursamsöluna en þeim heimsóknum hefur nú verið hætt þar sem starfsemin er flutt á Selfoss. Kennararnir okkar vildu nú alls ekki missa af þessu tækifæri til að komast í vettvangsferð svo þeir skipulögðu menningarferð í staðinn.

Við mættum eldhress í morgun korteri fyrr en venjulega með eftirvæntinguna og góða skapið með okkur. Okkur beið rúta sem tók okkur til Reykjavíkur og þar hófst veislan í Ásmundarsafni. Þar fengum við tækifæri til að skoða listaverk eftir bæði Ásmund Sveinsson og önnur verk eftir listamenn samtímans. Okkur fannst þetta mjög gaman og unnum verkefni á staðnum – sumir teiknuðu meira að segja upp nokkur verk.

Úr Ásmundarsafni var haldið í Árbæjarsafn. Þar tók á móti okkur leiðsögumaður sem gekk með okkur í gamla bæinn og sýndi okkur hvernig fólk bjó í gamla daga. Okkur fannst mjög spennandi að sjá og upplifa hvernig fólkið fór í bað í fjósinu og að margir hafi þurft að nota sama baðvatnið. Við fengum einnig að sjá hvernig dót börn á okkar aldri voru að leika sér með í þá daga.

 

Um þetta leiti vorum við orðin frekar spennt því næst var ferðinni heitið á skauta og við vorum búin að bíða lengi eftir því. Við keyrðum því í Egilshöllina, fengum okkur nesti og renndum okkur út á svellið. Við vorum svo heppinn að á svellinu var stelpa sem greinilega að var æfa listskauta og okkur fannst hún rosalega klár. Við skautuðum í heilan klukkutíma – skemmtum okkur konunglega og höfðum það gaman saman. Síðan var haldið heima á leið – margir voru svolítið þreyttir eftir átökin og lögðu sig í rútunni á leiðinni heim.

 

Fröken Reykjavík – takk fyrir okkur!

 

Kv 3. bekkur

 

Endilega takið ykkur tíma og skoðið myndir af okkur í ferðinni – Smellið HÉR til að nálgast myndirnar.